Stál

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Snúinn stálvír.

Stál er málmblanda járns og kolefnis sem hefur meiri styrk og brotþol en aðrar tegundir járns. Stál hefur auk þess mikið togþol og er tiltölulega ódýrt í framleiðslu með nútímaaðferðum. Vegna þessara eiginleika er stál eitt mest framleidda smíðaefni í heimi. Stál er notað í járnabindingar steyptra bygginga, brúarsmíði, skipasmíði, verkfæri, reiðhjól, bíla, vélsmíði, raftæki, húsgögn og vopn.

Megininnihaldsefni stáls er alltaf járn, en önnur efni koma fyrir í mismiklum mæli. Dæmigert kolefnisinnihald í stáli er allt að 2,14% af heildarþyngd. Ryðfrítt stál sem hefur meiri mótstöðu gegn tæringu, inniheldur oft 11% króm.

Járn getur tekið á sig tvær kristallsgerðir eftir hita og verið ýmist miðjusetinn teningskristall eða hliðarsetinn teningskristall. Tengsl ólíkra járngerva við önnur innihaldsefni, einkum kolefni, ráða eiginleikum ólíkra tegunda á borð við stál og pottjárn. Hreint járn er tiltölulega teygjanlegt og mótanlegt þar sem kristallsgerð þess hindrar frumeindirnar ekki í að hnikast fram hjá hverri annarri, en í stáli virkar lítið magn af kolefni og öðrum efnum eins og herðir sem kemur í veg fyrir aflögun.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu