Vilpa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vilpa var ein þriggja náttúrulegra vatnslinda í Vestmannaeyjum (ein er í Herjólfsdal). Hún var austan til á Heimaey, norðan Kirkjubæjar, en þar byggði Vilborg Herjólfsdóttir bæ sinn, Vilborgarstaði.

Vatnið í Vilpu var gruggugt og mjög blandað yfirborðsvatni, en fólk sótti þó þangað vatn lengi vel þar sem mun skemmra var að sækja það þangað en inn í Herjólfsdal. Á veturna lagði vatnsbólið og var þar vinsælt skautasvell.

Þegar Vestmannaeyjagosið hófst fóru á kreik sagnir um gamlan spádóm sem átti að segja fyrir um að þegar byggð á Heimaey færðist vestan Hásteins, fyllt yrði upp í Vilpu eða hún þornaði og biskupssonur yrði prestur Vestmannaeyinga, þá myndu Tyrkir ræna Vestmannaeyjar að nýju, og vildu ýmsir meina að gosið tengdist spádómnum og kæmi í stað Tyrkjaráns.[1] Fyrstu húsin í Vestmannaeyjabæ austan Hásteins komu til sögunnar þegar byggð hófst við Illugagötu, en sú gata er í beinni línu við Hástein. Barn drukknaði í Vilpu 1970 og eftir það var ákveðið að fylla upp í hana. Var það gert sumarið 1972. Biskupssonurinn Karl Sigurbjörnsson hafði sótt um prestsembætti í Vestmannaeyjum þegar eldgos hófst þar 23. janúar 1973 .[2] Þessari sögn mótmæltu þó sóknarnefnd og prestur Vestmannaeyinga og bentu á að hér væri vísað í Krukkspá, þar sem einmitt er sagt fyrir um annað Tyrkjarán en skilyrðin sem þar eru nefnd eru önnur að hluta og ekkert minnst á Vilpu.[3]

Vilpa hvarf undir hraun í gosinu.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Vilpa. Heimaslóð, skoðað 22. nóvember 2010.
  2. Allt er þá þrennt er. Morgunblaðið, 26. janúar 1973.
  3. „Allt er þá þrennt er“. Morgunblaðið, 27. janúar 1973.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Vilpa. Á www.heimaslod.is, skoðað 22. nóvember 2010“.